Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 326/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 326/2023

Þriðjudaginn 29. ágúst 2023

A

gegn

Reykjanesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 28. júní 2023, um að synja beiðni hennar um niðurfellingu á skuld vegna ofgreidds sérstaks húsnæðisstuðnings.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjanesbæ á árinu 2022. Með bréfi Reykjanesbæjar, dags. 8. maí 2023, var kæranda greint frá því að vegna villu í greiðslukerfi sveitarfélagsins hafi hún hafi fengið hærri greiðslu fyrir tímabilið janúar til mars 2022 en hún hafi átt rétt á. Farið var fram á endurgreiðslu að fjárhæð 56.517 kr. Með erindi, dags. 15. maí 2023, óskaði kærandi eftir að skuld hennar yrði felld niður vegna bágrar fjárhagsstöðu. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjanesbæjar synjaði þeirri beiðni með ákvörðun, dags. 28. júní 2023.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 1. júlí 2023. Með bréfi, dags. 7. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjanesbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjanesbæjar barst 24. júlí 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. júlí 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmál fer kærandi fram á að skuld vegna ofgreiddra húsaleigubóta verði felld niður á þeim grundvelli að þær hafi verið greiddar út án yfirlits yfir tímabil. Kærandi hafi talið að um rétta upphæð hafi verið að ræða vegna hækkunar á húsaleigubótum árið 2022. Fjárhagsstaða kæranda sé slæm vegna örorku og hún hafi ekki efni á að endurgreiða þessa upphæð. Kærandi hafi ekki enn fengið yfirlit né upplýsingar um það tímabil sem greiðslan eigi við um. Kærandi megi ekki við því að þær auka greiðslur sem hún eigi rétt á vegna húsnæðiskostnaðar verði skertar.

III.  Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar kemur fram að kærandi sé með virka umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning frá júní 2023 en þau gögn sem beðið sé um vegna kæru tilheyri eldra máli frá júlí 2022. Sækja þurfi um sérstakan húsnæðisstuðning á 12 mánaða fresti.

Velferðarráð og síðar bæjarráð Reykjanesbæjar hafi samþykkt breytingu á upphæðum sérstaks húsnæðisstuðnings í kjölfar breytinga á upphæðum húsnæðisbóta Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar síðastliðin áramót svo að hækkun stjórnvalda myndi skila sér til þeirra sem þurfi á að halda. Við þessar breytingar hafi sérstakur húsnæðisstuðningur verið leiðréttur til þeirra sem hafi fengið greiðslu á tímabilinu janúar til mars. Í einhverjum tilvikum hafi leiðréttingin verið röng vegna villu í greiðslukerfi, líkt og í tilviki kæranda. Þegar það hafi uppgötvast hafi þeir sem hafi fengið ofgreiðslu fengið bréf og þeim verið gert að endurgreiða ofgreiðsluna. Einstaklingum hafi verið boðið upp á nokkrar leiðir til þess eins og sjá megi af gögnum málsins. Kærandi hafi verið ósátt við þessa afgreiðslu og óskað eftir að áfrýjunarnefnd myndi taka afstöðu til málsins og fella niður skuldina. Áfrýjunarnefnd hafi ekki fallist á niðurfellingu með vísan til greinar 37 í reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð og sérstakan húsnæðisstuðning.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjanesbæjar um að synja beiðni kæranda um niðurfellingu á skuld vegna ofgreidds sérstaks húsnæðisstuðnings.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 skulu sveitarfélög veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur.

Reykjanesbær hefur sett reglur um sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 til útfærslu á þeirri þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita samkvæmt 45. gr. laganna. Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og ætlaður þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði eða eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað sökum lágra tekna, lítilla eigna og/eða þungrar framfærslubyrðar, sbr. 26. og 27. gr. reglna Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð.

Kærandi fékk greiddan sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjanesbæ á árinu 2022 en vegna villu í greiðslukerfi sveitarfélagsins fékk hún hærri greiðslu fyrir tímabilið janúar til mars en hún átti rétt á. Sveitarfélagið fór fram á endurgreiðslu að fjárhæð 56.517 kr. vegna ofgreiðslunnar.

Í 37. gr. reglnanna er kveðið á um leiðréttingu á sérstökum húsnæðisstuðningi. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Hafi fjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings verið hærri en umsækjandi átti rétt til á umræddu tímabili ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Heimilt er að draga ofgreiddan sérstakan húsnæðisstuðning frá síðar tilkomnum sérstökum húsnæðisstuðningi til sama aðila á næstu tólf mánuðum eftir endurskoðun. Hafi fjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings verið lægri en umsækjandi átti rétt til á umræddu tímabili ber velferðarsviði að endurgreiða þá fjárhæð sem vangreidd var.“

Af framangreindu ákvæði er ljóst að hafi einstaklingur fengið ofgreiddan sérstakan húsnæðisstuðning er honum skylt að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Í framangreindum reglum Reykjanesbæjar er ekki að finna sérstakt ákvæði sem heimilar niðurfellingu á skuld vegna ofgreidds sérstaks húsnæðisstuðnings líkt og kærandi fór fram á. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesti beri hina kærðu ákvörðun í málinu.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 28. júní 2023, um að synja beiðni A, um niðurfellingu á skuld vegna ofgreidds sérstaks húsnæðisstuðnings, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum